Þann 1. nóvember 1988 var fyrirtækið Hafnarbakki stofnað af Eimskipafélagi Íslands hf. Upphaflegur tilgangur félagsins var að annast sölu á úrvalssalti til saltfiskverkenda og einnig á götusalti til ríkis og bæjarfélaga. Skömmu eftir að Hafnarbakki var stofnaður hóf félagið að selja notaða gáma og þá einkum gáma sem Eimskip var hætt að nota.  Töluverð eftirspurn hefur verið eftir þessum gámum og þykja þeir henta vel sem geymslur undir hvers kyns hluti.  Síðustu árin hefur Hafnarbakki keypt gáma erlendis frá til að mæta aukinni eftirspurn, ýmist notaða eða nýja í flestum þeim útfærslum sem menn hafa óskað eftir.  Hafnarbakki hefur einnig verið með vinnuskúra og gámahús (smáhýsi) bæði til sölu og leigu.  Sú starfssemi hófst í litlum mæli árið 1991 en eftir að ákveðið var að auka þessa starfssemi árið 1999 hefur hún verið í stöðugum vexti.  Árið 2000 opnaði Hafnarbakki geymslusvæði í Suðurhöfninni í Hafnarfirði þar sem leigugámar voru geymdir svo og gámar í eigu einstaklinga og fyrirtækja.

Árið 2004 seldi Hafnarbakki saltdeildina til Saltkaupa hf. og 1. febrúar 2007 keypti svo Gámaþjónustan hf. Hafnarbakka.  Í kjölfarið var Hafnarbakki sameinaður Flutningatækni ehf. sem einnig er í eigu Gámaþjónustunnar hf. og hefur stundað innflutning á gámum og tækjum til sorphirðu ásamt ýmsum öðrum vörum tengdum endurvinnslu og umhverfi.  Í apríl 2008 flutti Hafnarbakki – Flutningatækni ehf. alla starfsemi sína að Hringhellu 6 í Hafnarfirði. Þar er einnig rekið verkstæði til að annast viðhald á vinnuskúrum og gámahúsum undir merkjum Hafnarbakka – Flutningatækni ehf.

Frá og með 7. október 2019 heitir fyrirtækið Terra Einingar.