Nú er fræ farið að skila sér fyrir alvöru í tunnurnar í Bónus. Fólk hefur vandað sig við tínsluna og margir lagt alúð við að þurrka fræið áður en því er skilað. Gaman er að sjá þetta. Mosfellingar standa sig til dæmis mjög vel og þar var tunnan full í Bónus-búðinni í gær þegar meðfylgjandi myndir voru teknar. Þá hafði þessi fallegi píramíði verið gerður úr pappaöskjum sem meira og minna voru fullar af fræi. Víðar er fræið að hrannast inn. Til dæmis var tunnan hálffull í annarri Bónus-búðinni í Akureyri í gær. Rétt er að hvetja fólk til að fara nú að skila inn fræi svo hægt sé að koma því til dreifingar. Tunnurnar verða í Bónus fram eftir mánuðinum. Enn er líka hægt að tína fræ en auðvitað nálgast veturinn og þar með lokin á verkefninu þetta árið.