Frá vinstri: Guðmundur Marteinsson, framkvæmdarstjóri Bónus, Auðunn Pálsson umsjónarmaður fasteigna …
Frá vinstri: Guðmundur Marteinsson, framkvæmdarstjóri Bónus, Auðunn Pálsson umsjónarmaður fasteigna og tækja hjá Bónus, Jónína Guðný Magnúsdóttir framkvæmdarstjóri viðskipta- og þjónustu hjá Terra, Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus.

Bónus hlýtur Umhverfisverðlaun Terra í ár fyrir markvissan árangur og ábyrga stefnu í flokkun og endurvinnslu. Bónus hefur jafnt og þétt dregið úr matarsóun, flokkað lífrænan úrgang, sýnt frumkvæði með því að vera fyrsta matvöruverslunin til þess að kolefnisjafna rekstur verslana sinna og fyrsti stórmarkaðurinn til að hætta sölu plastburðarpoka.

Í tilefni þessa dags bjóða Bónus og Terra viðskiptavinum sínum ókeypis moltu á Degi umhverfisins til að nota í garðverkin og græða þannig náttúruna eftir erfiðan vetur. Þetta er molta sem er unnin upp úr lífrænum úrgangi og gott dæmi um endurvinnslu og hringrásarhagkerfi; að koma efnislegum gæðum aftur til skila út í umhverfið. Stór þáttur í því er flokkun og endurvinnsla; að vera þátttakandi í hringrásarhagkerfinu er ekki einungis okkar ábyrðar hlutverk gagnvart jörðinni, heldur einnig hagkvæmara fyrir rekstrarumhverfi fyrirtækja sem axla þessa ábyrgð.

Terra hefur metnað fyrir því að skilja ekkert eftir og vill hvetja og auðvelda Íslendingum að takast á við þá áskorun. Að skilja ekkert eftir er okkar þýðing á hugtakinu „Zero Waste“ og lýsir vel markmiðum okkar í endurvinnslu og meðhöndlun úrgangs. Umhverfisverðlaun Terra er hvatning til þeirra sem hafa lagt sig fram og staðið sig vel í flokkun og endurvinnslu.

Til hamingju Bónus og til hamingju öll með Dag umhverfisins!

Skiljum ekkert eftir!