Notum ekki plastpoka undir lífrænan úrgang - notum frekar maíspoka.

Við hjá Terra höfum um árabil gert ýmsar grænar tilraunir með maíspoka og moltu. Mismunandi maíspokar hafa verið prófaðir og við höfum fylgst með hversu fljótt þeir brotna niður. Maíspokarnir sem að við að lokum völdum til að notan og höfum til sölu, brotna niður sem lífrænn úrgangur sem er nýttur í moltugerð hjá Terra. Þeir brotna algjörlega niður á 12-22 vikum við kjöraðstæður sem Terra býður upp á: við 40-60% raka og 50°C - 70°C hita þar sem bakteríur, sveppir, maðkar og aðrar lifandi verur hjálpa til við niðurbrotið.

Maíspokar hafa ótvírætt marga kosti fram yfir plastpokana. Það er hægt að breyta þeim í moltu á skömmum tíma. Maíspokarnir eru léttari en plastpokarnir, sem gerir það að verkum að kolefnissporið vegna flutninga verður minna. Helsti kosturinn við maíspoka er að ef þeir sleppa út í náttúruna valda þeir ekki sama skaða á lífríkinu og plastpokarnir. Tilraunir Terra leiddu því í ljós að maíspokarnir hafa alla burði til þess að leysa plastpoka af hólmi. Pokarnir innihalda ekki erfðabreyttan maís. Kornið sem notað er til framleiðslunnar er ræktað í Evrópu í samræmi við þá staðla sem þar gilda og er ekki erfðabreytt. Þá er notuð matarolía við framleiðsluna sem einnig er unnin úr hráefni sem ekki er erfðabreytt. 

Plastið brotnar mjög seint niður og plastmengun er orðið eitt alvarlegasta vandamál heims. Plastpokar er stór hluti af þeim vanda. Ef ekkert breytist verður meira plast í hafinu en fiskar eftir þrjátíu ár. Íslendingar hafa verið að nota um 1.100 tonn af plastpokum árlega og til að framleiða alla þessa poka þarf því rúmlega 2.200 tonn af olíu.  Plast eyðist ekki við náttúrulegt niðurbrot, heldur brotnar það niður í litlar plastagnir og verður að endingu að svokölluðu örplasti. Þetta örplast er þá þegar farið að hafa alvarlegar afleiðingar á lífríki jarðar og þar eru efni sem geta haft hormónaraskandi áhrif. Þess vegna hafa plastpokar verið bannaðir víða um heim til þess að takast á við það mikla magn plasts og plastpoka sem er í umferð. Plastmengun er mál sem snertir alla jarðarbúa, það snertir daglegt líf okkar og því mikilvægt að fara hugsa um lausnir án plasts.

Notum því alltaf maíspoka undir lífrænan úrgang.