Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppur eru þessa dagana að taka stórt skref í flokkun á úrgangi. Nú um mánaðarmótin munu sveitarfélögin fara í þá vegferð að lífrænn úrgangur verði flokkaður í sér ílát. Krafa hefur verið frá íbúum og fyrirtækjum að auka flokkun og er þetta einn liðurinn í því að bregðast við þessum kröfum. Það sem flýtti þessari vegferð af stað, fyrr en áætlað var, er ákvörðun Sorpu bs. að taka ekki lengur við úrgangi frá Suðurlandi til urðunar í Álfsnesi. Þegar þetta er skrifað stefnir að óbreyttu í útflutning á sorpi til brennslu, sem mun kosta sveitarfélögin talsverða fjármuni og því er nauðsynlegt að minnka það sorp sem þarf að flytja út. Fasteignaeigendur og fyrirtæki þurfa því að flokka lífræna úrganginn og eru jafnframt hvött til að safna gleri og málmum meðal annars til að minnka magn almenns sorps og þar með kostnað við útflutning. Gler og málma verður hægt að setja í þar til gerða gáma á gámasvæðum sveitarfélaganna. Þessi úrgangur verður ekki sóttur að heimilum.

Sveitarfélögin tvö hafa unnið náið saman að sorpmálum síðan árið 2009 og hefur Gámaþjónustan þjónustað sveitarfélögin síðan. Flokkunin hófst árið 2009 með tveimur tunnum við hvert heimili, grárri tunnu undir almennt sorp og blárri tunnu þar sem pappír og pappa var safnað saman. Það var svo árið 2016 að næstu skref voru tekin þegar græn tunna undir plast kom á hvert heimili í sveitarfélögunum. Nú árið 2019 bætist brún tunna við undir lífrænan úrgang.

Það þýðir að frá og með næstu mánaðarmótum verða fjórar tunnur við hvert heimili í Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppi, ásamt hvatningu um að gler og málmur verður flokkaður sér. Við þessa breytingu verður flokkunin með því besta sem gerist á landsvísu. Með því að flokka í sex flokka; almennt, lífrænt, pappír og pappa, plast, málm og gler er úrgangurinn aðskilinn strax á heimilunum.

Fréttin er tekin af Fréttavef Suðurlands