Verið er að kanna hvort mögulegt sé að bæta áburðargildi moltunnar enn frekar með nýjum aðferðum sem…
Verið er að kanna hvort mögulegt sé að bæta áburðargildi moltunnar enn frekar með nýjum aðferðum sem sprotafyrirtækið Atmonia hefur verið að þróa.

Íslenskir vísindamenn nýta lífrænan úrgang, moltu, brennistein og fleira  fyrir fyrstu jarðræktartilraunir hjá Landgræðslunni og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Starfsmenn Matís hafa staðið í ströngu við að safna hráefnum og útbúa áburðarblöndur fyrir verkefnið Sjálfbær áburðarvinnsla sem styrkt var af Markáætlun Rannís. Í verkefninu er unnið að því að kortleggja magn lífrænna aukahráefna og vandamálaúrgangs sem fellur til á Íslandi með það í huga að nýta hann í landgræðslu og til jarðræktar. Nýsköpunar fyrirtækið Atmonia tekur einnig þátt í verkefninu en fyrirtækið þróar umhverfisvænan framleiðsluferil fyrir köfnunarefnisáburð. Molta frá Terra er partur af þessari rannsókn. Þar er moltan mæld og skoðuð og kannað hvort sé mögulegt að bæta áburðargildi moltunnar enn frekar með nýju, íslensku hugviti. 

Með aukinni nýtingu þess lífræna hráefnis sem til fellur úr íslenskum iðnaði og blöndun þess við mikilvæg næringarefni, svo sem köfnunarefnis og brennisteins, er hægt að draga verulega úr innflutningi á tilbúnum áburði og um leið loka hringrásinni og minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

Meðhöndlun og notkun lífrænna hráefna í áburð fylgir oft mikið umstang auk þess sem slík meðhöndlun er kostnaðarsöm. Mikið magn hráefna þarf jafnan til að uppfylla næringarþörf í landbúnaði og landgræðslu auk þess að næringarsamsetningin er ekki alltaf eins og best verður á kosið. Í verkefninu verður því leitast við að finna leiðir til að bæta lífræn áburðarefni og draga um leið úr flutningskostnaði og útblæstri.