Um leið og við óskum lesendum okkar gleðilegra jóla, viljum við deila með ykkur fimm hugmyndum til að gera jólin innilegri og umhverfisvænni ásamt því að fara yfir hvernig á að flokka úrgang og endurvinnsluefni sem tengast jólahátíðinni.

Sannur jólaandi snýst ekki endilega um að kaupa meira og sóa verðmætum, sönn og falleg jól snúast alltaf um að láta gott af sér leiða og reyna að gera heiminn að pínulítið betri stað fyrir okkur öll.

5 góð ráð til þess að gera jólin innilegri og umhverfisvænni

  1. Hjálpaðu öðrum. Stærsta jólagjöfin. Bættu samkennd og manngæsku inn í jólin; mættu í sjálfboðavinnu, gefðu tíma eða pening í gott málefni. Rauði krossinn, Samhjálp, Mæðrastyrksnefnd, Fjölskylduhjálpin, Hjálparstofnun kirkjunnar og margir fleiri vinna mikilvæg og falleg störf um jólin.
  2. Búðu til þína eigin jólagjöf. Hvað kanntu að gera? Þú getur búið til sultu, málað mynd, prjónað sokka, ort ljóð.
  3. Gefðu upplifun. Leikhús, námskeið, nuddtími, jóga, heilsurækt, ferð með útivistarfélagi.
  4. Kauptu notað. En ef þú kaupir eitthvað nýtt leitaðu þá að endingargóðum, endurnýtanlegum hlutum sem gerðir eru í nágrenni þínu.
  5. Skipulegðu matarinnkaupin með það fyrir hendi að koma í veg fyrir matarsóun með skynsamlegum innkaupum og nýtingu.

Takk fyrir árið 2020!