Landgræðslan og Terra ætla vinna saman að uppgræðslu lands á Reykjanesi, nálægt Krýsuvík. Terra útvegar moltu sem verður dreift á þessu svæði til þess að örva vöxt og stöðva rof. 

Markmið verkefnisins er að stuðla að aukinni notkun á moltu til endurheimtar vistkerfa og annarra landbóta í verkefnum þar sem annars væri notaður tilbúinn áburður. Landgræðslan í samstarfi við Terra og Fjáreigendafélag Grindavíkur vinna sumarið 2020 að verkefni um notkun moltu til endurheimtar vistkerfa innan beitarhólfs fjáreigendafélagsins. Fjáreigendafélagið hefur um árabil unnið að landgræðslu innan beitarhólfsins og sú vinna er meginforsenda fyrir því að hægt sé að halda fé innan beitarhólfa á Reykjanesi og friða þannig meginhluta þess fyrir beit. Í verkefninu verður um 1500m3 af moltu dreift á um 50 hektara lítt gróins lands og haldið utan um gögn um framkvæmd og árangur. Í lok verkefnis verða niðurstöður teknar saman í skýrslu sem birt verður opinberlega með það að markmiði að fleiri framleiðendur moltu og notendur geti nýtt sér niðurstöðu verkefnisins.

Við hjá Terra erum stolt af þessu mikilvæga samstarfi. Þetta er stórt skref í að innleiða nýja hugsun með að nýta betur lífrænan úrgang og moltu til að græða landið. Þetta er hringrásarhagkerfið í framkvæmd.