Afríski þróunarbankinn hefur tryggt 6,5 milljarða Bandaríkjadollara næstu fimm árin sem renna munu í eitt stærsta umhverfisverkefni Afríku, græna múrinn mikla sem verið er að rækta yfir þvera álfuna sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. Talað er um múrinn sem gróandi veraldarundur og að hann verði stærsta lifandi fyrirbæri jarðarinnar.

Frá þessu er greint á vef Skógræktarinnar.

Frá þessari nýju fjármögnun var greint í gær í fréttatilkynningu frá afríska þróunarbankanum, African Development Bank Group. Bankinn upplýsti fyrst um framlagið á málstofu sem Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Karl Bretaprins efndu til í tengslum við ráðstefnu One Planet Summit um líffjölbreytni sem nú stendur yfir í París. Þeir félagar eru frumkvöðlar og verndarar þessarar ráðstefnu sem fram fer árlega.

Fjármagnið nýja verður aðgengilegt í gegnum ýmsar áætlanir sem styðja við ræktun græna múrsins mikla. Byggt er á bæði innri fjármögnun og utanaðkomandi uppsprettum fjármagns svo sem frá afríska orkusjálfbærnisjóðnum Sustainable Energy Fund for Africa (SEFA), græna loftslagssjóðnum Green Climate Fund (GCF) og fleirum.

Fjölþjóðlegir þróunaraðilar gengu til liðs við bankann og lofuðu fjármagni til þessa mikla verkefnis sem Afríkuþjóðir stýra. Markmiðið er að endurhæfa vistkerfi á svæðum sem eyðimörkin mikla hefur verið að seilast inn á. Með því móti er hægt að treysta afkomu og fæðuöryggi íbúanna, hamla gegn eyðimerkurmyndun og búa trygga framtíð, störf og tekjur fyrir milljónir Afríkubúa á svokölluðu Sahel-svæði sunnan Sahara. Það nær allt frá Senegal í vestri til Djíbútís í austri. Ef ekki væri gripið til slíkra aðgerða blasti fátt annað við íbúunum en landflótti.

Í fréttatilkynningu afríska þróunarbankans er haft eftir bankastjóranum Akinwumi Adesina að samhliða því sem heimsbyggðin réttir úr kútnum eftir kórónaveirufaraldurinn verði að skilgreina hugtakið vöxt upp á nýtt. Setja verði í forgang þann vöxt sem stuðlar að vernd náttúrugæða og líffjölbreytni í staðinn fyrir hefðbundinn vöxt sem gengur á sameiginleg gæði okkar.

Adesina tók þátt í fundinum með rafrænum hætti frá Abidjan, viðskiptahöfuðborg Fílabeinsstrandarinnar. Hann lýsti græna múrnum mikla sem umhverfislegu varnarkerfi Afríku. Múrinn yrði skjól fyrir ógnum rofafla og eyðimerkurmyndunar. Framtíð Sahel-svæðisins í Afríku stæði og félli með því að þessi græni múr yrði reistur. Án hans gæti Sahel-svæðið breyst í auðn.

Loftslagsbreytingar hafa valdið því að ógnarhiti er orðinn algengari á Sahel-svæðinu, úrkoma óreglulegri og þurrkar skæðari. Þarna búa um 250 milljónir manna í tíu þjóðlöndum. Verði ekkert að gert má búast við því að árangur margvíslegra þróunarverkefna verði að engu og milljónir manna missi viðurværi sitt.