Vormoltan er komin og farin. Mikil eftirspurn hefur verið eftir moltunni okkar og nú er svo komið að öll moltan okkar er búin í bili. Viðskiptavinir Bónus og Ikea voru fljótir að bregðast við og nýta sér þér þá moltu sem var í boði á vormánuðum. Fólk er að nota moltuna í garðyrkju og skógrækt og hafa viðtökurnar verið afskaplega góðar. Margir eru að uppgötva að það er kannski betra og umhverfisvænna að nota innlenda, græna framleiðslu í staðinn fyrir innfluttan áburð. Einn af þeim er Andri Gunnarson sem sendi okkur þessa línu:

"Mig langaði senda ykkur hrós fyrir moltuna sem þið eruð að bjóða, sem og viðarkurlið. Ég er að gera garðinn minn frægan, bókstaflega, út af þessum vörum. Var á leiðinni að hafa samband en það sem gerði útslagið er að aðilar voru að birta mynd af beðunum hjá mér á garðyrkjusíðum á facebook og spyrja um hvar viðkomandi fengi þetta efni :) Ég geri lítið annað en að stefna nágrönnum mínum til ykkar. Þarf að koma og fá hjá ykkur meira."

Vertu hjartanlega velkominn Andri - ný molta er væntanleg á næstu vikum. 

Allur lífrænn úrgangur sem við tökum á móti er jarðgerður og öll okkar molta fer í gegnum vottað ferli. Moltan frá Terra hefur fengið viðurkenningu frá Matís og Umhverfisstofnun. Við rekum okkar eigin jarðgerðarstöð og beitum sérstakri hitameðferð og annarri meðhöndlun til þess að búa til úrvals vöru. Molta sem er unnin upp úr lífrænum úrgangi er afbragðs dæmi um endurvinnslu og hringrásarhagkerfi sem við stefnum öll að; að koma efnislegum gæðum aftur til skila út í umhverfið. 

VIð gerum ráð fyrir að 3 vikur séu í næsta skammt af moltu.