Stóri plokkdagurinn er á laugardag, á degi umhverfisins, og verður að þessu sinni plokkað til stuðnings heilbrigðisstarfsfólki. Óvissa hafi verið um hvort halda ætti hátíðina á tímum samkomubanns en ákveðið að láta slag standa samráð og leiðbeiningar frá Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá embætti ríkislögreglustjóra.
Í tilkynningu frá skipuleggjendum segir að ákveðið hafi verið að plokka rusl við heilbrigðisstofnanir landsins, sjúkrahús, heilsugæslustöðvar og dvalar- og hjúkrunarheimili og sýna þannig þakklæti í verki í garð heilbrigðisstarfsfólks sem hefur verið undir miklu álagi svo vikum skiptir.

Deginum verður skipt í tvær vaktir og byrjar sú fyrri klukkan tíu og sú seinni klukkan eitt. Terra og verslunarkeðjan Krónan bjóða íbúum höfuðborgarsvæðisins að koma með óflokkað plokk í gáma frá Terra við verslanir Krónunnar í Mosfellsbæ, Granda, Höfða, Kórahverfi og Flatahrauni.

Þessi þjónusta sé miðuð fyrir fjölskyldu- og eintaklingsplokk. Hópar verði að hafa samband við sitt sveitarfélag eða koma plokkinu sjálfir í Sorpu eða aðra safnstaði. Skipuleggjendur hvetja fólk til þátttöku í plokkinu sem sé tækifæri til að sameina útiveru og hreyfingu. Auðvelt sé að virða tveggja metra regluna og fegra umhverfið með því að tína upp plast og rusl sem sé víða að finna eftir stormasaman vetur.