Þann 24. september sl var undirritaður samningur milli NLSH og Terra vegna gámahúsa á vinnubúðareit á lóð Landspítalans við Hringbraut. Terra mun útvega gámaeiningar, reisa og ganga frá að fullu á vinnusvæðinu. Um er að ræða mötuneytis- og fataaðstöðu ásamt tengigangi þar á milli. Einnig mun Terra útvega gámaeiningar fyrir móttökuhús, tvö vakthús og reykingahús.

Terra er helst kunnugt fyrir endurvinnslu og meðhöndlun úrgangs og hefur það sem kallast „zero waste“ að markmiði. Auk starfsemi við endurvinnslu hefur Terra einnig komið upp húseiningum, líkt og til stendur að nota á byggingasvæði nýs Landspítala en Terra hefur til dæmis komið upp húseiningum í Garðabæ til notkunar í skólastarfi og húsin hituð með vatni og nota LED-lýsingu til að lágmarka orkunotkun. Húseiningar Terra eru snjöll og umhverfisvæn lausn en fyrirtækið notar sjálft slíkar húseiningar á starfstöðvum sínum í Hafnarfirði og á Akureyri.

Samninginn undirritaði f.h. NLSH ohf., Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri og frá Terru einingum ehf., Gunnar Bragason forstjóri Terra einingum ehf. Vottar voru þeir Ásbjörn Jónsson sviðsstjóri framkvæmdasviðs NLSH og Ingi Arason rekstrarstjóri hjá Terra einingum.

Fréttin birtist fyrst hér