Terra hefur ákveðið að endurgreiða hlutabætur vegna starfsfólks félagsins sem hefur verið á skrá hjá Vinnumálastofnun, og nýta það úrræði ekki lengur.

Terra tók þátt í hlutabótaleið stjórnvalda til þess að vernda störf og tryggja starfsemi fyrirtækisins, þegar mikil óvissa ríkti í þjóðfélaginu. Þrátt fyrir að Terra hafi orðið fyrir verulegum tekjusamdrætti m.a. vegna hruns í ferðaþjónustu, lokun á hótelum, veitingahúsum og flugvöllum og að þjónusta við skemmtiferðaskip hafi fallið niður, þá er ljóst að fyrirtækið mun komast í gegnum þennan ólgusjó án aðkomu stjórnvalda.

Allur rekstur fyrirtækisins að undanförnu hefur miðast við að halda áfram eðlilegri starfsemi og ráðningasambandi við starfsfólk, í stað þess að grípa til stórfelldra uppsagna. Á þessari stundu er erfitt að sjá hvaða áhrif farsóttin mun hafa á íslenskt samfélag, atvinnu- og viðskiptalíf, en nú reynir á góðan samhug og samvinnu stjórnvalda og atvinnulífsins til þess að tryggja störf og velferð almennings í landinu.