Við ætlum að skyggnast bakvið tjöldin hjá viðskiptavinum okkar á árinu og við fengum að heyra sögu Grand hótel, sem hefur lagt mikla áherslu á að flokka sinn úrgang og sýna framúrskarandi tölur. Markmiðið með þessum sögum er að kynnast fyrirtækjum sem eru að gera góða hluti og miðla þeirra fróðleik. Þannig deilum við þekkingu. Við fengum Guðlaug Sæmundsson, innkaupa- og vörustjóra, til að svara nokkrum spurningum um þeirra vegferð.

„Allt hófst þetta hjá okkur árið 2010 þegar lagt var af stað í það verkefni að fá umhverfisvottun fyrir Grand Hótel Reykjavík (GHR). Ákveðið var að ganga til samvinnu við Umhverfisstofnun með Svansvottun á hótelið. Vottunin gekk í gildi í mars 2012 og hefur því verið hér í 10 ár. Íslandshótel ákvað strax að innleiða stóran hluta af þeim kröfum sem Svanurinn setti GHR á önnur hótel þar á meðal flokkun úrgangs. Í upphafi stjórnaðist flokkunin mikið af því hverju viðkomandi sveitarfélag gat tekið við. Flokkun í heild sinni hefur stór aukist á síðustu átta árum.”

Guðlaugur telur mikilvægt að markmið séu til staðar, þó þau séu ekki endilega skrifleg en markmið þeirra hafa verið byggð á skýrslu um Grænt bókhald sem fært er inn fyrir hótelið.

En hvernig ætli það hafi verið að sannfæra alla starfsmenn um mikilvægi flokkunar og fá þá til þess að breyta sínum venjum?

„Heilt yfir taka allir starfsmenn vel í þau vinnubrögð sem við erum með varðandi flokkun á úrgangi. Til að auka skilning og áhuga starfsmanna fer fram regluleg fræðsla í samvinnu við okkar þjónustuaðila. Fræðslan hefur farið þannig fram að fulltrúar frá Terra koma fá sal á hótelinu til að koma og sýna frá því sem fellur til og mikilvægi þess að rétt sé staðið að flokkun. Notast hefur verið við aðstoð túlks svo að allar upplýsingar komist rétt til skila.“

Vegferðin á Grand hótel hefur vakið athygli, enda eitt af þeim hótelum sem fyrst byrjuðu að stíga skrefin í umhverfismálin. Þau hafa notast við grænt bókhald til að mæla árangur sinn og til að auka enn frekar áhersluna á umhverfismál og eru Íslandshótel nú að taka upp „Green Key“ vottun fyrir öll hótel keðjunnar sem von er á að verði klárt fyrir lok sumars.

En hefur Guðlaugur ráð fyrir önnur fyrirtæki sem vilja gera betur í úrgangsmálum?

„Ef það eiga að vera ráð til fyrirtækja almennt þá finnst mér eftir þá tíu ára reynslu, ekki spurning að fyrirtæki setji sér markmið varðandi umhverfismál. Sæki þær vottanir sem hæfa hverri starfsemi. Ég er svoddan nörd í þessu að mér finnast þessi málefni alltaf skemmtileg. Þegar þetta langur tími er liðinn eins og hjá okkur þá er svo gaman að hafa góðar upplýsingar til að bera saman. Í stuttu máli byrjið strax að flokka og náið í góða umhverfisvottun sem hæfir ykkar starfsemi.

Við þökkum Guðlaugi fyrir að deila með okkur þeirra sögu, óskum honum og samstarfsfólki áframhaldandi góðs gengis og frábæru samstarfi.