Endurvinnslutunnan

 Þarf að þvo endurvinnsluefni?

 Allt efni sem fer til endurvinnslu þarf að vera nokkuð hreint og gæta þarf að því að ekki séu matarafgangar í umbúðum t.d. þarf að skola fernur og láta vatnið leka úr að  mestu. Ekki er nauðsynlegt að þurrka umbúðirnar. Margir setja jógúrt- eða skyrdósina í uppþvottavélina.
 Oft á tíðum er um samsettar umbúðir að ræða og er þá gott að aðskilja efnin eins og mögulegt er t.d að rífa plastflipa af drykkjarfernum og taka ál- eða pappafilmu af jógúrt-  og skyrumbúðum og fleiri umbúðum áður en efnin eru sett í viðeigandi ílát.

 Hvar á ég að staðsetja tunnur við heimilið?

 Miðað er við 20 metra frá þeim stað sem sorpbíll getur stöðvað. Aðalatriðið er að gott aðgengi sé. Ekki þurfi að fara með tunnur upp og niður tröppur sé hjá því komist.   Tunnur séu staðsettar götumegin húss. Kjósi íbúi að staðsetja tunnu annarsstaðar en viðmið segir til um þarf íbúi að koma tunnunni á slíkan stað á losunardegi.

 Hvað má setja í endurvinnslutunnuna?

 Í Endurvinnslutunnuna getur þú sett sex flokka af umbúðum: Öll dagblöð/tímarit, pappír (bæklingar, umslög og ruslpóstur), sléttur pappi/bylgjupappi (s.s. hreinir pizzukassar   og morgunkornspakkar), málmar (s.s. niðursuðudósir og lok af glerkrukkum), fernur (skolaðar og samanbrotnar) og plastumbúðir (s.s. sjampóbrúsar, plastdósir og   plastpokar,  áleggsbréf, kaffiumbúðir og snakkpokar) má setja laust í tunnuna. 

Má ég setja ál form og ál dósir í Endurvinnslutunnuna?

Já allar tegundir áls mega fara í Endurvinnslutunnuna.

Mega gluggaumslög fara í Endurvinnslutunnuna eða þarf að taka plastið af?

Gluggaumslög mega fara í Endurvinnslutunnuna með öðrum pappír og óþarfi er að taka plastið af.

Má ég setja lokin af glerkrukkunum í Endurvinnslutunnuna?

Já, lokin flokkast sem málmur. Glerkrukkuna má ekki setja í Endurvinnslutunnuna. Gleri má skila á móttökustöðvar um land allt. 

Þarf ég að skola plastbrúsa áður en þeir eru settir í Endurvinnslutunnuna?

Já það þarf að skola þá. Allt endurvinnsluefni þarf að vera hreint þegar það er sett í Endurvinnslutunnuna.

Má setja jólapappír í Endurvinnslutunnuna?

Já allur jólapappír má fara í Endurvinnslutunnuna.

Þarf að taka merkimiðana af plastumbúðunum sem fara í Endurvinnslutunnuna?

Nei, það þarf ekki að taka merkimiðana af plastumbúðunum.