Flokkunarleiðbeiningar eru mismunandi fyrir heimili eftir því í hvaða sveitarfélagi þau eru staðsett. Hvert og eitt sveitarfélag skilgreinir sitt flokkunarfyrirkomulag og fyrirtæki eins og Terra þjónustar það fyrirkomulag. 

Terra sér um að flokka efnin og koma þeim þangað sem þau gera mest gagn!

Hvað svo?

Allur bylgjupappi, pappír og málmar sem við söfnum fer í endurvinnslu.  Pappi og pappír er sendur úr landi til endurvinnslu. Málmar fara til endurvinnslufyrirtækja hér á landi. Við sendum plastfilmuna til Hollands þar sem frekari flokkun fer fram og síðan endurvinnsla aftur í plastefni.  Það eru síðan margir flokkar af öðru umbúðaplasti, t.d. plastpokum, smærri plastfilmu, plastbökkum, samsettri plastfilmu (t.d. áleggsbréf), skyrdósum, stórum og litlum plastflöskum og brúsum, sem við tökum saman í einn flokk.  Þetta plast er núna sent til Þýskalands þar sem það fer í nánari flokkun.  Meirihluti af plastinu er endurunnið, en hluti þess er ekki nothæft til endurvinnslu, t.d. vegna óhreininda eða samsetningu umbúða. Það plast sem ekki er hæft til endurvinnslu, fer til orkuvinnslu. Þannig nýtist efnið til að búa til hita í stað annarra orkugjafa.