Lífræn söfnun 

Hvert heimili hefur tvenns konar ílát, annarsvegar fyrir óflokkaðan úrgang og hins vegar fyrir lífrænan eldhúsúrgang. Sérbýli eru með eina tunnu undir almennt sorp og er sérstakt hólf fyrir lífræna úrganginn hengt inn í tunnuna. Fjölbýli fá sérstaka tunnu undir lífrænan úrgang.


Það er áríðandi að allur lífræni úrgangurinn fari í sérstaka poka, úr maís/kartöflusterkju og bundið sé fyrir áður en þeir eru settir í hólfið í tunnunni sem ætlað er fyrir lífræna úrganginn eða í sérstakar tunnur. Þessir pokar eru umhverfisvænir og brotna niður í jarðgerðarferlinu ásamt innihaldinu. 


Lífræna efnið sem er safnað er eftirfarandi:
Ávextir og ávaxtahýði, grænmeti og grænmetishýði, egg, eggjaskurn, eldaðir kjöt- og fiskafgangar, mjöl, hrísgrjón og pasta, brauð, kökur, tepokar og kaffikorgur. Einnig mega notaðar servíéttur og eldhúsbréf fara með í tunnuna.


Athugið að binda vel fyrir pokana áður en þú setur þá í söfnunartunnuna. Venjulega plastpoka má alls ekki nota.


Íbúar bera sjálfir ábyrgð á hreinleika ílátanna. Lykt frá ílátum er ekki frá lífræna efninu sem verið er að safna, heldur má rekja lyktina í öllum tilfellum til umgengninnar við ílátið. Því er það mikilvægt að íbúar haldi ílátunum hreinum.


Gert er ráð fyrir að lífrænum úrgangi sé safnað frá íbúum á tveggja vikna fresti og er lífræna efninu frá íbúunum blandað (stoðefnum) timburkurli, húsdýraskít og efni sem er þegar búið að jarðgera að hluta.

Lífræn söfnun - A4


Endurvinnslutunnan

 

Endurvinnslutunnan, sem er 240 l, er útbúin með innra hólfi sem er um 60 l. Dagblöð, tímarit, mjólkurfernur og annar pappír fer laust í tunnuna. Málmum er komið fyrir í plastpokum og settir í innra hólfið ásamt plastumbúðum og brúsum. Plastfilmum og plastpokum skal pakka í plastpoka og setja þannig í hólfið til þess að koma í veg fyrir að plastið fjúki.

Ef innra hólfið er orðið fullt er betra að setja plastpoka og plastfilmur, sem áður er búið að setja í poka, með pappírnum í sjálfa tunnuna.

 

Leiðbeiningar fyrir endurvinnslutunnuna