IKEA hefur sinnt umhverfismálum vel allt frá stofnun fyrirtækisins fyrir rúmum sjötíu árum og er oft talað um að umhverfisvernd sé hluti af erfðaefni þess. Stofnandinn, Ingvar Kamprad, var nýtinn og hagsýnn maður frá Suður-Svíþjóð, þar sem vinnusemi, nýtni og elja hafa löngum verið í hávegum höfð. Þessi gildi hafa fylgt IKEA, sem hefur sett sér formlega umhverfisstefnu með metnaðarfullum markmiðum til ársins 2030 og kallast hún People and Planet Positive. Eitt stærsta markmiðið er að stuðla að hringrás á öllum sviðum starfseminnar og lágmarka þannig rusl eins og framast er unnt. IKEA á Íslandi fylgir að sjálfsögðu stefnunni og sinnir auk þess staðbundnum verkefnum á sviði umhverfisverndar og samfélagsábyrgðar.

Einn afar mikilvægur liður í umhverfismálum hvers fyrirtækis er flokkun og úrvinnsla úrgangs frá fyrirtækinu. Þótt markmið allra í dag hljóti að vera að draga úr sorpi hvar sem því verður við komið, þá er enn óhjákvæmilegt að hjá stórfyrirtæki falli til gríðarlegt magn úrgangs sem þarf þá að flokka eins vel og hægt er. IKEA hefur stórbætt flokkun sína í samstarfi við Terra og eitt hliðarverkefnanna hefur verið að taka þann lífræna úrgang sem fellur til á veitingastaðnum og í mötuneyti starfsmanna og endurnýta hann. Undanfarin misseri hefur Terra sótt lífrænan úrgang til IKEA og unnið úr honum moltu. Fullunnin molta er svo sett í gám sem stendur úti á bílastæði verslunarinnar þar sem öllum er frjálst að fá ókeypis moltu. Þannig er á virkan hátt verið að finna leiðir til að lágmarka urðun á sorpi og búa til verðmæti á sama tíma. Til fyrirmyndar!

.
IKEA