,,Hugmyndafræði IKEA byggir á sjálfbærum starfsháttum svo okkur þykir margt af þessu, eins og hönnun á góðu flokkunarsvæði í versluninni, sjálfsagður hlutur. Þá hefur líka hjálpað mikið þróun innan IKEA á heimsvísu við einföldun á hráefnisvali þar sem plasti hefur mikið til verið skipt út fyrir pappír og pappa svo eitthvað sé nefnt,” segir Ragnar Þórðarson, sjálfbærnifulltrúi hjá IKEA.
Hann segir að hjá IKEA séu viðhorf til umhverfis- og sjálfbærnimála mjög jákvæð svo nýtt starfsfólk upplifir fljótt hvað þetta skiptir fyrirtækið miklu máli. Hann nefnir að sjálfbærniskilaboð inni í verslun, fræðsla á innra-netinu og lítil gæluverkefni eins og moltuvél í kaffihorninu séu dæmi um það sem á þátt í að miðla því viðhorfi.

