Lagabreytingar varðandi meðhöndlun úrgangs

Í lögum um meðhöndlun úrgangs kemur fram hvernig standa eigi að stjórnun úrgangsmála hérlendis. Umfangsmiklar breytingar urðu á lögum í júní 2021 ásamt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um úrvinnslugjald.

Þessar breytingar koma flestar til framkvæmda árið 2023 og er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs.

Strax um áramót verður sá breyting að urðun matarleifa verður bönnuð svo að öll fyrirtæki og sveitarfélög þurfa að bjóða starfsmönnum og íbúum upp á viðeigandi lausn. 

Við mælum með eftirfarandi vefsíðum til þess að kynna sér enn frekar upplýsingar um flokkun og hringrásarhagkerfið:

Fjórir flokkar við heimilin og sjö flokkar fyrir fyrirtæki

Sérsöfnun hjá fyrirtækjum

  • Pappír og pappi (bylgjupappi er flokkaður sérstaklega)
  • Plast
  • Matarleifar
  • Blandaður úrgangur
  • Málmar
  • Gler & postulín
  • Textíll

Sérstök söfnun við íbúðarhús 

  • Pappír og pappi
  • Plast
  • Matarleifar
  • Blandaður úrgangur

Sérsöfnun fyrir íbúa á grenndarstöðvum

  • Málmar
  • Gler
  • Textíll

Gjaldtaka verður í takt við hve miklu fólk hendir

Ekki verður valkvætt að hafa blandaðar flokkunartunnur heima við eins og verið hefur. Tunnurnar þurfa þó ekki endilega að vera fjórar, en víða verður hægt að fá tvískiptar tunnur. Ekki liggur fyrir hvernig eða hvort kostnaður við það leggist á heimili.

Svokölluð framlengd framleiðendaábyrgð á umbúðum fylgir líka lögunum. Framleiðendur og innflytjendur umbúða eiga þá að borga kostnaðinn við förgunina á þessum sömu umbúðum.

Fyrirkomulagið "Borgað þegar hent er"  verður þá tekið í notkun á öllu landinu, þar sem sveitarfélög eiga að rukka sorphirðugjald í samræmi við hve miklu fólk hendir.

Grímsnes og Grafningshreppur og Ísafjarðarbær prófa nú slíka gjaldtöku eftir rúmmáli áður en það er tekið upp á landsvísu.

Samræmt merkingarkerfi

Samhliða þessum breytingum verður loks komið á samræmdu flokkunarkerfi um landið allt sem hefur mikið verið kallað eftir. Þá er lögaðilum einnig skylt að nota samræmdar flokkunarmerkingar sem mun auðvelda flokkun umtalsvert.

Meginmarkmið með samræmdum merkingum er að koma á sambærilegum leikreglum við heimili, vinnustaði, sumarbústaði, söfnunarstöðvar og á ýmsum viðburðum. Hér er því um að ræða eitt af lykilverkefnum við innleiðingu hringrásarhagkerfis hér á landi. Merkingarnar eru valfrjálsar og gjaldfrjálsar og almenningur og fyrirtæki munu einungis þurfa að þekkja brot af þeim 81 merkingum sem standa til boða. 

Auðvelt er að aðlaga merkingarnar að þeirri söfnun sem er til staðar þar sem kerfið byggir á LEGO kubba hugsun og er í senn sveigjanlegt og samræmt. Ef fleiri en einn flokkur á að fara í sama ílátið eru notaðar fleiri en ein merking.

Hér er hlekkur á samræmdu flokkunarmerkingarnar