Jólaseríur

Ónýtar jólaseríur eiga alls ekki að enda í gráu tunnunni. Þeim á að skila á endurvinnslustöðvar í sérstök ílát fyrir seríur eða flokka með öðrum raftækjum.

Seríur flokkast sem raftæki eins og annar búnaður sem knúinn er rafmagni. Nánar tiltekið flokkast þær sem lítil raftæki. Á söfnunarstöðvum sveitarfélaga er venjulega kar eða tankur fyrir þennan flokk en á höfuðborgarsvæðinu og víðar sjá starfsmenn stöðvanna um móttöku og flokkun raftækja.
 
Seríur eins og önnur lítil raftæki eru sendar úr landi til endurvinnslu. Móttökuaðili sendir tækin í gegnum vinnslulínu þar sem þau eru tætt niður í smáar efnisflögur sem síðan fara í gegnum vélræna flokkun. Sú flokkun aðskilur gler, málma og plast og þessir efnisstraumar eru síðan sendir áfram til endurvinnslu hjá fyrirtækjum sem eru sérhæfð hvert í sínum flokki.

Jólapappír, merkispjöld og pakkabönd

Venjulegur gjafapappír má fara með dagblöðum og öðrum pappír í pappírstunnu. Pappír með glimmeri og málmáferð/húð má líka fara með öðrum pappír.

Merkispjöld eru yfirleitt úr pappa og flokkast þá eins og pappírinn.

Hins vegar eru pakkaböndin í flestum tilfellum úr plasti og ber að flokka með öðru plasti. Ef um er að ræða pakkabönd úr öðru efni en plasti, til dæmis úr silki eða öðru slíku þá flokkast þau með líni.

Hafa má í huga að flest pakkaskraut og bönd  má endurnýta ár eftir ár jafnvel. 

Rafhlöður

Í desember fellur til mikið magn af rafhlöðum sem finna má í hinum ýmsu jólaljósum, led kertum og svo framvegis.

Í rafhlöðum og ýmsum raftækjum eru hættuleg spilliefni sem eru hættuleg náttúrunni. Það er því afar brýnt að rafhlöður fari ekki beint í gráu tunnuna heldur í rétta úrvinnslu til viðurkenndra aðila sem hafa þekkingu til að farga eða eyða slíku.

Rafhlöður skal flokka í sérstök ílát á endurvinnslustöðvum eða með öðrum raftækjum.

Margar verslanir taka við rafhlöðum og má þar til dæmis nefna Byko, Bónus og Olís. 

Mandarínukassar

Í kringum hátíðarnar falla til mandarínukassar í þúsundatali sem einfalt er að nýta aftur. Til dæmis er hægt að föndra ýmislegt úr mandarínukössum sem hafa lokið hlutverki sínu.

Þegar notkun þeirra hins vegar er lokið má flokka þá á endurvinnslustöðvum landið allt í ílát undir timbur., 

Kertaafgangar og sprittkertabikarar

Það er alltaf best að aðskilja efni eins og mögulegt er. Ef það er ekki hægt þá mega kertavax afgangar fara með þar sem vaxið brennur við endurvinnslu á málmkoppunum.

Hins vegar er hægt að safna og skila kertastubbum, ónothæfum kertum og vaxi í grenndargám til ýmissa aðila. Hægt er að nýta vax sem fellur til í að búa til endurunnin kerti, ef því er safnað sérstaklega og komið á réttan stað.