Eftirspurn eftir snjallsímum, rafbílum, sólarpanelum og annarri tækni heldur áfram að aukast, og þar með þörfin fyrir þau hráefni sem gera tæknina mögulega. Þann 14. október er haldinn Alþjóðlegi rafrusldagurinn (#ewasteday) í áttunda sinn, en í ár er sjónum beint að nauðsynlegum hráefnum sem gegna lykilhlutverki í grænni og stafrænni umbreytingu heimsins.

Mikilvægi hráefna

Um er að ræða frumefni sem aðeins eru unnin í fáum löndum og hafa því bæði efnahagslegt og pólitískt vægi. Þrátt fyrir að margir geri sér grein fyrir mikilvægi þeirra er ekki alltaf vitað að þessi efni má endurheimta úr gömlum eða biluðum raftækjum sem liggja ónotuð í skúffum og geymslum.

Markmiðið með deginum er að minna á að þessi tæki eru ekki úrgangur heldur verðmæt auðlind sem hægt er að nýta aftur.

Evrópusambandið setur metnaðarfull markmið

Með nýrri CRM-löggjöf (Critical Raw Materials Act) hefur Evrópusambandið sett sér skýr markmið:

  • 10% af árlegri notkun hráefna skal koma innanlands frá
  • 40% skal vera unnið innan ESB
  • 25% þarf að koma úr endurvinnslu

Til að ná þessu þarf að safna meira af raf- og rafeindatækjaúrgangi og þróa sérhæfða tækni til að vinna úr honum. Þótt árangursrík endurvinnsluferli séu til fyrir efni eins og kopar og ál, er krafist nýsköpunar til að endurvinna sjaldgæfari efni sem finnast í litlu magni í raftækjum.

Samkvæmt nýlegri rannsókn frá TNO gæti endurheimt úr raftækjaúrgangi staðið undir allt að 31% af núverandi þörf ESB fyrir þessi efni. Sérfræðingar, meðal annars hjá Deloitte, hafa bent á að núverandi löggjöf sem leggur áherslu á þyngd frekar en verðmæti hráefna sé ekki nægilega hvetjandi fyrir hringrásarhagkerfið.

Neytendur lykillinn að lausninni

Þrátt fyrir að löggjöf og tækni skipti máli, er þátttaka almennings og fyrirtækja ómissandi. Rannsókn WEEE Forum og UNITAR sýnir að hvert heimili á að meðaltali 74 raftæki (ljós og lampar ekki talin með). Þar af eru 61 í notkun, 9 eru ónotuð en enn í lagi, og 4 biluð en geymd. Heildarmassi raftækja á heimilum er áætlaður 90 milljón tonn.

Gamlar fartölvur, símar og hleðslutæki sem safnast upp í skúffum geta því verið verðmæt hráefni sem nýtast í nýrri framleiðslu. Með því að skila raftækjum á viðeigandi söfnunarstaði stuðla neytendur beint að því að halda hráefnum í hringrás og styrkja hringrásarhagkerfið.

Raftækjum má skila á flestar móttökustöðvar.

Sveitarfélagið þitt veitir nánari upplýsingar um hvert má skila í þinni heimabyggð

Sjá má frekari upplýsingar á vef Úrvinnslusjóðs