Bygging nýs Landspítala markar þáttaskil í stafrænum lausnum í úrgangsstjórnun. Terra sér um úrgangsstjórnunina í samvinnu við Eykt og NLSH. Gerðar eru miklar kröfur um endurnýtingu.

Farnar eru nútímalegar og vistvænni leiðir í byggingu nýs Landspítala, stærstu byggingarframkvæmd næstu ára á Íslandi. Meðan á framkvæmdum stendur er allur úrgangur sem fellur til flokkaður í að lágmarki sjö flokka samkvæmt BREEAM-staðli. Einnig eru gerðar reglulegar mælingar á loftslags- og umhverfisáhrifum í sambandi við úrgang sem berst frá svæðinu. Terra, sem er umhverfisfyrirtæki atvinnulífsins 2020, sér um úrgangsstjórnun í samvinnu við Eykt sem sér um uppsteypuna og NLSH ohf. sem stýrir heildarframkvæmdinni.

„Þetta verkefni markar þáttaskil þegar kemur að stafrænum lausnum í úrgangsstjórnun til þess að fylgjast með endurvinnsluhlutfalli og kolefnisfótspori af akstrinum,“ segir Jónína Guðný Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri viðskipta- og þjónustusviðs Terra. „Það eru miklar kröfur gerðar varðandi úrgangsstjórnun, flokkun, endurvinnslu og mælingar í þessari gríðarmiklu framkvæmd; allt skal miðast við BREEAM-staðalinn. Það hefur verið sönn ánægja fyrir Terra að fara í þessa vinnu með Eykt. Til að mynda skal endurnýta 95% af hættulausum byggingarúrgangi frá vinnusvæði; hann skal endurnýttur á staðnum, endurnýttur á öðrum verkstað eða þá geymdur til síðari endurnýtingar. Það fellur vel við kjörorð okkar: Skiljum ekkert eftir.“

Rauntímagögn um endurvinnsluhlutfall og kolefnisfótspor

Er þetta framtíðin í byggingariðnaði?

„Það er klárt mál. Flokkun er ekki einungis samfélagslega ábyrgari leið fyrir verktaka og byggingarfyrirtæki heldur getur líka verið mun hagkvæmari. Hvatarnir gera flokkun hagkvæmari ef miðað er við eyðingargjöld úrgangsins. Einnig gera flest útboð í dag einhverja kröfu um endurnýtingar- og endurvinnsluhlutfall og skráningu kolefnisspors. Terra skilar af sér upplýsingum til Eyktar, sem eru uppfærðar í rauntíma á Mínum síðum Terra, um hvernig þau standa sig í lágmörkun og flokkun úrgangs og spilliefna með því að gefa upp magn hvers flokks og heildarendurvinnsluhlutfall. Einnig kemur þar fram fjöldi ferða, keyrsla í kílómetrum og meðaleyðsla hvers bíls, svo auðvelt er að reikna út kolefnisspor af akstrinum samkvæmt BREEAM.“ Búið er að koma upp verkreglum og aðbúnaði á framkvæmdarstað til að flokka, endurnýta og endurvinna byggingarúrgang og annan úrgang. Allir gámar á svæðinu eru kyrfilega merktir á þremur tungumálum og myndrænt.

Smáhýsi – hagkvæm og umhverfisvæn

Terra sér einnig um uppsetningu á vinnubúðum og tímabundnu skrifstofurými á svæðinu. Nú er þar risið smáhúsaþorp sem er hentug og hagkvæm lausn í stórum framkvæmdum. Um er að ræða einingar sem auðvelt er að taka niður í lok verkefnis. „Smáhýsi henta ekki einungis tímabundnum framkvæmdaverkefnum heldur er þetta einnig til dæmis vel þekkt lausn fyrir skóla. Fjöldi barna getur verið misjafn eftir árgöngum, hverfi eldast einnig og yngjast til skiptis og þá getur oft munað mörgum tugum barna. Þá er hagkvæmt og umhverfisvænt að nota smáhýsi sem hægt er að flytja burt og endurnýta í öðrum tilgangi þegar þeirra er ekki lengur þörf,“ segir Jónína.

„Frá samfélagslegu og lagalegu sjónarmiði munu kröfurnar um lágmörkun og stöðuga upplýsingagjöf varðandi úrgang aukast. Það skiptir máli að fá tölur í rauntíma til bregðast hratt og rétt við og Terra er sannarlega með í þeirri vegferð.“