Það er orðið ljóst að það verða miklar breytingar varðandi meðhöndlun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu á næstu misserum. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa gert samkomulag um að urðun úrgangs verði að mestu hætt í Álfsnesi, takmarkanir hefjast þegar á næsta ári og enn meiri takmarkanir verða árið 2022.

Þessi staða krefst þess að leitað sé annarra leiða til förgunar á úrgangi sem ekki er endurvinnanlegur ásamt því að auka flokkun eins og hægt er.

Sorpa er búin að tilkynna umtalsverðar gjaldskrárhækkanir hjá fyrirtækinu um næstu áramót, m.a. varðandi þann úrgang sem tekið verður á móti til urðunar í Álfsnesi, og það mun hafa áhrif á gjaldskrá Terra.

Til einhverra ára, í smáum stíl árið 2021 en af fullum þunga árið 2022 og næstu ár þar á eftir, verður lausnin sú að flytja óendurvinnanlegt sorp erlendis til brennslu og framleiðslu á orku. Terra hefur undanfarið verið að undirbúa slíkan útflutning og mun hefja tilraunasendingar á næstu vikum. Það er von Terra að framtíðarlausn verði innan fárra ára til staðar hér á landi varðandi eyðingu á óendurvinnanlegum úrgangi.

Útflutningur á úrgangi er mun kostnaðarsamari en þær lausnir sem hafa staðið til boða hér á landi. Það er mjög mikilvægt að Terra og viðskiptavinir félagsins vinni saman að aukinni flokkun á úrgangi, ná sem mestu af endurvinnanlegum efnum úr almenna sorpinu og koma þeim efnum til endurvinnslu með minni tilkostnaði. Þannig minnkar það magn sem þarf að senda erlendis til orkuvinnslu.

Terra hvetur viðskiptavini sína til að hafa samband varðandi aukna flokkun, fá ráðleggingar og breyta kerfinu hjá sér eins og þörf er á, og einnig mun Terra hafa frumkvæði að slíkum samskiptum.