Ónýtar jólaseríur eiga alls ekki að enda í gráu tunnunni. Þeim á að skila á endurvinnslustöðvar í sérstök ílát fyrir seríur eða flokka með öðrum raftækjum.

Seríur flokkast sem raftæki eins og annar búnaður sem knúinn er rafmagni. Nánar tiltekið flokkast þær sem lítil raftæki.
 
Á söfnunarstöðvum sveitarfélaga er venjulega kar eða tankur fyrir þennan flokk en á höfuðborgarsvæðinu og víðar sjá starfsmenn stöðvanna um móttöku og flokkun raftækja.
 
Seríur eins og önnur lítil raftæki eru sendar úr landi til endurvinnslu. Móttökuaðili sendir tækin í gegnum vinnslulínu þar sem þau eru tætt niður í smáar efnisflögur sem síðan fara í gegnum vélræna flokkun.
 
Sú flokkun aðskilur gler, málma og plast og þessir efnisstraumar eru síðan sendir áfram til endurvinnslu hjá fyrirtækjum sem eru sérhæfð hvert í sínum flokki.