Góð umhirða við grenndargáma – ábyrgð okkar allra

Grenndargámar gegna lykilhlutverki í daglegri flokkun úrgangs og eru mikilvæg þjónusta fyrir íbúa. Þeir eru sameiginlegt svæði sem allir nota og því skiptir máli að umgengni sé góð, snyrtileg og ábyrg. Þegar endurvinnsluefni er skilið eftir við gámana í stað þess að fara ofan í þá, skapast vandamál sem snerta bæði umhverfi, öryggi og lífsgæði í nærumhverfinu.

Endurvinnsluefni við gámana – ekki lausn

Það er mikilvægt að skilja ekki eftir endurvinnsluefni við grenndargáma, jafnvel þótt þeir séu fullir eða erfitt virðist að losa í þá. Laust sorp getur fokið og einnig dregur það að sér fugla og önnur dýr sem rífa pokana, dreifa úrgangi og auka sóðaskap. Þetta leiðir ekki aðeins til óþrifnaðar í kringum grenndargámana heldur líka nær umhverfis þeirra.

Ef gámar eru fullir er rétt að:

  • leita að næsta grenndargámasvæði
  • geyma sorpið tímabundið heima
  • fara á næstu móttökustöð

Stórir söfnunarbílar og öryggi

Grenndargámar eru tæmdir með stórum söfnunarbílum sem þurfa að komast örugglega að þeim. Þegar endurvinnsluefni eru skilin eftir á jörðinni eða bílar eru lagðir of nálægt gámum getur það komið í veg fyrir að bílstjórar geti unnið vinnu sína á öruggan hátt. Í verstu tilfellum er ekki hægt að tæma gámana, sem leiðir til enn meiri uppsöfnunar sorps. Þar sem innmatið á þessum söfnunarbílum er nær þriggja metra hátt, er ekki mögulegt fyrir bílstjóra að setja endurvinnsluefni sem skilin eru eftir við grenndargámana ofan í bílinn. Það ef viðkomandi bílstjóri ætti að fara flokka það sem almenningur nennir ekki að setja í gámana eða koma í viðeigandi farveg mundi hægja ansi mikið á rúntinum hjá honum og mundu þeir þá ekki ná að halda sig við losunardagatal tiltekins sveitarfélags.

Góð umgengni þýðir að:

  • halda svæðinu í kringum gámana hreinu
  • leggja ekki bílum þannig að þeir hindri aðkomu
  • skilja eftir nægt rými fyrir losunarbíla
  • alls ekki skilja eftir úrgang við hliðin á grenndargámnum

Góð umgengni minnkar sóðaskap

Þegar sorp er sett rétt ofan í gáma dregur það verulega úr aðdráttarafli svæðisins fyrir fugla. Minni fuglaþyrpingar þýða minna rusl á jörðinni, minni lykt og hreinna umhverfi fyrir alla. Snyrtileg grenndargámasvæði stuðla einnig að jákvæðari upplifun íbúa og aukinni virðingu fyrir sameiginlegum rýmum.

Sameiginleg ábyrgð

Grenndargámar eru sameign samfélagsins. Með því að sýna ábyrgð, hugsa um næsta notanda og ganga vel um, stuðlum við að hreinna umhverfi, betra öryggi og fallegra hverfi. Lítil atriði í daglegu lífi – eins og að ganga frá úrgangi á réttan hátt – hafa mikil áhrif þegar allir taka þátt.

Góð umgengni skiptir máli. Fyrir umhverfið, fyrir öryggið og fyrir okkur öll.