Þann 14. október og dagana í kring er dagur alþjóðlegs átaks í söfnun raftækja. Átakið er sett af stað að frumkvæði WEEE Forum og er dagurinn nú haldinn í annað sinn til þess að vekja athygli á endurvinnslu raftækjaúrgangs og hvetja neytendur til að skila raftækjum. Þátttakendur í ár eru í um 40 löndum víðs vegar um heim. WEEE-forum eru alþjóðleg samtök aðila sem fara með framleiðendaábyrgð vegna raf- og rafeindatækjaúrgangs. Úrvinnslusjóður er í samtökunum og hefur staðið fyrir átakinu hér á landi. 

Terra umhverfisþjónusta safnar og tekur við raftækjaúrgangi og kemur honum í réttan farveg. Í ónýtum og úreltum raftækjum leynast bæði verðmæti sem ekki er gott að fari forgörðum og spilliefni sem við viljum ekki fá út í umhverfið. Staðreyndin er hins vegar sú að smærri raftæki eiga það til að lenda í almennu rusli vegna smæðar sinnar og vegna þess að ekki hafa allir hugann við eða hugmynd um hvað er rétt í þessum efnum. Það er einnig líklegt að slík tæki leynist í skúffum og skápum landsmanna, engum til gagns.

Hvað er raftækjaúrgangur?
Undir raftækjaúrgang flokkast allskyns tæki og tól, þar á meðal lítil tæki sem ganga fyrir rafhlöðum.

Í þennan flokk getum við fellt:

 • farsíma
 • tónhlöður
 • fjarstýringar
 • litlar myndavélar
 • rafmagnstannbursta
 • vekjaraklukkur
 • úr
 • rafrettur
 • handfrjálsar tölvumýs
 • bluetooth-búnað
 • hitamæla (t.d. kjöthitamæla)
 • veglykla
 • bílskúrshurðaopnara
 • vasaljós
 • reiknivélar

... og margt fleira.

Í mörgum tilfellum fylgja rafhlöður litlum raftækjum, með tilheyrandi mengun. Með því að henda þessum og öðrum raftækjum með almenna sorpinu, bæði mengum við umhverfið og hindrum eðlilega og sjálfsagða endurvinnslu.

Hvað er best að gera?
Þægilegast og best að fara með raftækjaúrgang á næstu gámastöð, eða í spilliefnamóttöku eins og Terra Efnaeyðingu. Einnig má skila þeim til raftækjaverslana.

Terra Efnaeyðing hefur á boðstólum sérstaka margnota kassa til söfnunar á rafhlöðum á heimilum. Það er líka kjörið að henda smáraftækjum með rafhlöðum í kassann.

Sama á við um „Rafhlöðutunnuna“ sem við hugsum meira fyrir fyrirtæki þar sem mikið fellur til af rafhlöðum og fyrir sérstaka söfnunarstaði. Svoleiðis tunnur eru t.d. á bensínstöðvum N1 og Skeljungs, 10-11, Hagkaup, Elko, BYKO, Húsasmiðjunni og Bauhaus. Í þessar tunnur er tilvalið að losa heimiliskassann en það er einnig hægt að gera á endurvinnslustöðvum Sorpu og á söfnunarstöðum sveitarfélaga um land allt.

Hvað gerist svo?
Þegar raftækin eru komin í okkar hendur flokkum við í sundur tæki og rafhlöður og komum hvoru tveggja í viðeigandi meðhöndlun og endurvinnslu. Rafhlöðurnar fara til Frakklands þar sem þær eru flokkaðar eftir efni í kolarafhlöður, nikkel-kadmium, liþíum, nikkel-metal hydride og kvikasilfur. Síðan fer hver flokkur í tætingu og aðgreiningu einstakra efna rafhlöðunnar. Að lokum er málmunum komið aftur í hringrásina.

Smáu raftækin eru send til endurvinnsluaðila í Svíþjóð. Þar eru aðgreindir og endurheimtir málmar og plast og allt nýtanlegt efni fer síðan inn í framleiðsluhringrásina

Höfundur greinar er Jón H. Steingrímsson framkvæmdastjóri Terra Efnaeyðingar.