Lyf eru flokkuð sem spilliefni sem skal flokka frá og skila til eyðingar. Einfaldast er að skila þeim í næsta apótek en lyfjaverslanir taka á móti öllum lyfjaafgöngum endurgjaldlaust.

Lyfin skulu tekin úr ytri umbúðum, þ.e. þeim umbúðum sem hafa ekki komist í snertingu við lyfin. Flokka skal þessar ytri umbúðir eftir tegund umbúða sem oftast eru pappír, plast eða gler. Mikilvægt er að skila pilluspjöldum ásamt lyfjunum í næsta apótek. Starfsmenn þar koma þeim svo áleiðis til viðurkenndra móttökuaðila sem fara með þau í örugga eyðingu.

Við í efnamóttöku Terra tökum á móti öllum spilliefnum og förgum þeim á öruggan hátt. Lyfjaafgöngum er í flestum tilvikum eytt í brennslu.

Það er afar mikilvægt að huga að þessu því töluvert af lyfjum berst út í umhverfið með frárennsli hér við land. Rannsókn sem Umhverfisstofnun gerði 2018 leiddi í ljós að fjögur af þeim sextán efnum sem finna má á sérstökum vaktlista Evrópusambandsins fundust í íslensku umhverfi. Þetta eru efni sem eru talin ógn við vatnaumhverfi í Evrópu.

Niðurstöður Umhverfisstofnunar benda til þess að töluvert magn lyfja berist út í umhverfið með frárennsli. Því er mikilvægt að skila inn til apóteka öllum lyfjaafgöngum sem falla til á heimilum svo þeim verði fargað á réttan hátt og spilli ekki umhverfinu.

Sýnt hefur verið fram á að lyf sem komast út í umhverfið geta haft í för með sér neikvæð áhrif á fiska og annað lífríki, t.d. með beinum áhrifum á atferli dýranna sem getur dregið úr möguleikum þeirra til að fjölga sér en einnig geta lyfin kallað fram eitrunaráhrif. Að auki þá geta lyfjaleifar ýtt undir sýklaónæmi.

Frétt Umhverfisstofnunar