Í tilefni af umfjöllun Heimildarinnar 2. júní sl. um afdrif ferna sem safnað er á Íslandi viljum við hjá Terra umhverfisþjónustu koma eftirfarandi á framfæri:

Terra umhverfisþjónusta hefur mörg undanfarin ár sinnt söfnun á Tetrapak umbúðum með tvenns konar hætti. Annars vegar með sérsöfnun frá heimilum og hins vegar með því að safna Tetrapak-umbúðum í blandaðri pappírssöfnun. Í síðara tilvikinu eru Tetrapak-umbúðirnar flokkaðar frá blandaða pappírnum í vélrænni flokkun.

Allt Tetrapak efni er svo sent sem hreinn efnisflokkur til hollenska endurvinnslufyrirtækisins Peute Papier Recycling sem staðfestir móttökuna. Það er síðan grundvöllur Úrvinnslusjóðs til greiðslu fyrir úrvinnsluna.

Móttökuaðili okkar, Peute, hefur staðfest við okkur að efnið hafi verið sent pappírsendurvinnslum og framvísað undirrituðum flutningsskjölum til marks um það. Í pappírsendurvinnslunum er endurheimt eins mikið af pappírsinnihaldi fernanna og frekast er mögulegt. Við höfum það staðfest að endurvinnsluhlutfallið sé yfir 70% og að úr hráefninu sé framleiddur pappír. Það sem eftir stendur er nýtt til orkuframleiðslu og í sumum tilvikum til framleiðslu á þakplötum. Að gefnu tilefni, með hliðsjón af framansögðu, vísum við því á bug að fernur sem safnað er á Íslandi af Terra umhverfisþjónustu séu sendar til brennslu á meginlandi Evrópu.