Félagsskapurinn Plokk á Íslandi blæs til Stóra plokkdagsins á laugardaginn kemur, á Degi umhverfisins. Þetta er þriðja árið sem hópurinn skipuleggur þetta umhverfisátak undir sínum merkjum. Vegna samkomubanns og óvissutíma var hópurinn á báðum áttum hvort réttlætanlegt væri að boða til hátíðarinnar þetta árið en eftir samráð og leiðbeiningar frá Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá embætti ríkislögreglustjóra, var ákveðið að láta slag standa.

Í ár vilja plokkarar landsins beina plokktöngum sínum að heilbrigðisstofnunum landsins, sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og dvalar- og hjúkrunarheimilum, og sýna þannig þakklæti sitt í verki, enda hefur starfsfólk og stjórnendur þessara heilbrigðisstofnanna verið undir miklu álagi svo vikum skiptir. Svavar Hávarðsson, einn af öflugustu plokkurum landsins, bar þessa hugmynd upp innan hópsins og var henni afar vel tekið.
Hugmyndin er táknræn. Það er ekki svo að í kringum heilbrigðisstofnanir landsins sé rusl að finna í meiri mæli en annars staðar, en með því að taka þátt í plokki í kringum heilbrigðisstofnanir getum við, fólkið í landinu, látið þakklæti okkar í ljós með þessum táknræna hætti.
Terra og Krónan aðstoða plokkara
En það verður plokkað á fleiri stöðum og hægt að stofna viðburði á samfélagsmiðlum, tengja þá við Plokk á Íslandi, fá merkingar frá Plokk á Íslandi og hvetja fólk til þátttöku bæði heima í hverfi og við næstu stóru umferðarmannvirki allt eftir tíma og getu.

Terra og verslunarkeðjan Krónan munu í sameiningu bjóða íbúum höfuðborgarsvæðisins að koma með óflokkað plokk í gáma frá Terra sem staðsettir eru á eftirfarandi

Krónuverslunum á höfuðborgarsvæðinu:

  • Krónan í Mosfellsbæ, Háholti 13-15.
  • Krónan á Granda, Fiskislóð 15-21 í Reykjavík.
  • Krónan á Höfða, í Húsgagnahöllinni í Reykjavík.
  • Krónan í Kórahverfi, Kópavogi.
  • Krónan í Flatahrauni, Hafnarfirði

Þessi þjónusta er miðuð við fjölskyldu- og einstaklingsplokk. Fyrir hópa eða hverfi sem ætla að skipuleggja víðtækara plokk er bent á að hafa samband við sveitarfélagið sitt og tilkynna hvar sækja megi afraksturinn á mánudag nema hóparnir séu í aðstöðu til að koma plokkinu í Sorpu eða aðra viðeigandi safnstaði.
Nánast öll sveitarfélög landsins taka þátt með einum eða öðrum hætti og hægt er að nálgast upplýsingar á heimasíðum þeirra og samfélagsmiðlum.
Tvær plokkvaktir
Deginum skiptum við upp í tvær plokkvaktir. Sú fyrri byrjar klukkan 10:00 að morgni og sú síðari klukkan 13:00. Öllum er frjálst að taka þátt í hluta skipulagðra aðgerða eða deginum öllum, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar inn á PLOKK Á ÍSLANDI á Facebook og á samfélagsmiðlum eða heimasíðum sveitarfélaganna.
Nokkrir af virkustu plokkurum landsins munu standa vaktina við heilbrigðisstofnanir og aðstoða byrjendur við að koma sér af stað. Hægt er að fá nánari upplýsingar á facebook-síðunni Plokk á Íslandi.

Almennt um Stóra plokkdaginn

Stóri plokkdagurinn verður haldin á Degi umhverfisins 25. apríl næstkomandi og er það von skipuleggjenda að sem flest sveitarfélög hvetji íbúa sína til þátttöku og auðveldi hann með hverskyns aðkomu og aðstoð.
Að plokka gefur fólki tækifæri til að sameina útiveru og hreyfingu sem og að sýna umhverfinu og samfélaginu kærleik í verki. Það er tilvalið í samkomubanni þar sem auðvelt er að virða tveggja metra regluna. Að plokka fegrar umhverfi okkar og náttúru en víða er mikið af plasti og öðru rusli eftir stormasaman vetur.

PLOKKTRIXIN Í BÓKINNI

1. Finna sér svæði til að plokka á og hvetja fjölskylduna til að taka þátt.
2. Stofna viðburð eða tengja sig inn á stofnaðan viðburð.
3. Útvega sér ruslapoka, hanska og plokktöng.
4. Klæða sig eftir aðstæðum.
5. Virða samkomubannið og gæta að tveggja metra reglunni.
6. Koma afrakstrinum á viðeigandi stofnun.
7. Hringja eða senda tölvupóst á sveitarfélagið sitt og láta sækja ef magnið er mikið.
8. Gæta fyllstu varúðar og brýna fyrir börnum að láta nálar og aðra hættulega hluti vera, en tilkynna til foreldra eða umsjónarmanna svo mögulegt sé að fjarlægja þá.
Plokktímabilið 2020 er formlega hafið. Samkomubann er alveg upplagt til að taka á því í plokkinu.

#skiljumekkerteftir