Við hjá Terra erum stolt og glöð að hafa fengið viðurkenninguna Umhverfisfyrirtæki ársins 2020 sem Samtök atvinnulífsins veita. Terra er hringrásarfyrirtæki sem hefur haft umhverfismál í fararbroddi í starfsemi sinni í gegnum tíðina. Terra hefur metnað fyrir því að skilja ekkert eftir og vill hvetja og auðvelda Íslendingum að takast á við þá áskorun með því að flokka og endurvinna betur. Að skilja ekkert eftir er þýðing á hugtakinu „Zero Waste“ og lýsir vel markmiðum okkar í endurvinnslu og meðhöndlun úrgangs.

„Þessi verðlaun eru mikil viðurkenning fyrir okkar starf og góð hvatning fyrir starfsfólk Terra. En við höfum metnað til að gera enn betur. Með nýjum markmiðum, nýjum stafrænum leiðum, grænum fjárfestingum og íslensku hugviti viljum við stíga mikilvæg og græn skref inn í framtíðina, innleiða hringrásarhagkerfi og efla mikið flokkun og endurvinnslu. Þetta viljum við gera í samvinnu við fólkið í landinu, stjórnvöld og íslensk fyrirtæki, til að draga úr mengun og gróðurhúsaáhrifum og skapa um leið hagkvæmara og betra þjóðfélag.

Ég skora á okkur öll að taka umhverfis- og endurvinnslumál föstum tökum og gefa þeim það vægi sem þau þarfnast. Vörur eru framleiddar til að anna eftirspurn. Ef við sem búum þessa jörð förum að hugsa og framkvæma með það að leiðarljósi að varan sem við notum sé hluti af hringrásarhagkerfinu, að það sé búið við hönnun að gera ráð fyrir því hvað gert er við vöruna að loknum líftíma hennar, þá getum við breytt miklu. Ísland er ekki stórt land en öll skref í þessa átt eru til bóta. Við skiptum því máli. Skiljum jörðina eftir á betri stað en við tókum við henni.“
Gunnar Bragason, forstjóri Terra.

Ljósmyndina tók Birgir Ísleifur Gunnarsson