Esjan er vinsælasta fjall landsins, þetta er bæjarfjall okkar Reykvíkinga og á hverjum degi gengur fjöldi manns upp fjallið, bæði Íslendingar sem og erlendir ferðamenn.

Reykjavíkurborg ætlar nú samstarfi við Terra að setja upp þetta fína og huggulega náðhús við Esjurætur. Það er mikil þörf fyrir náðhús við vinsæla ferðamannastaði og við hjá Terra erum stolt af þessum fallegu og hagnýtu Danfo náðhúsum sem falla vel inn í náttúrlegt umhverfi, þau innihalda fullkomin vatnssalerni, vaska, ljós og hreinlætisaðstöðu.

Þetta er oft nauðsynlegur viðkomustaður eftir langa og skemmtilega fjallgöngu.

Hér er ró og hér er friður - hér er gott að sturta niður.

Hér fær að fylgja með fróðleikur um vatnssalernið:

Englendingurinn John Harington fann upp vatnssalernið árið 1596. Rithöfundur og skáld við hirð Elísabetar fyrstu Englandsdrottningar. Hann þótti róttækur og gagnrýndi stundum sjálft einveldið fyrir framan nefið á drottningunni og það var einmitt í tengslum við slíka óforskammaða gagnrýni sem hugmyndin að vatnssalerninu fæddist. Þetta fyrsta alvöru vatnssalerni, sem er í raun fyrirmynd allra annarra, kallaði hann því skemmtilega nafni Ajax og kom því fyrir í sinu eigin húsi í bænum Kelston. A-Jakes var þá slanguyrði fyrir kamra en Harington hannaði þennan merkilega hlut fyrst og fremst með drottninguna í huga. Hreinni og þrifalegri kamar innandyra, sem hæfði sómakonunni Elísabetu sem var nýjungagjörn, framsýn og einkar hrifin af nýjum uppfinningum. En Harington var raunar enginn uppfinningamaður þrátt fyrir að hafa rambað á sjálft klósettið eins og við þekkjum það; nei, hann var fyrst og fremst það sem við köllum hugsuður og mörg verka hans ollu miklu fjaðrafoki og hreyfðu við samtímamönnum hans. Og í sínu frægasta verki, A New Discourse upon a Stale Subject: The Metamorphosis of Ajax, deilir hann leynt og ljóst á einveldið og misskiptingu í samfélaginu. Fyrir vikið var hann auðvitað rekinn frá hirðinni en fyrir náð og miskunn Elísabetar var honum kippt þangað inn aftur – kannski ekki síst fyrir sjálft vatnssalernið sem í þessu merka riti er lýst með nákvæmum hætti. Elísabet gerðist reyndar ekki svo fræg að setjast á þessa tímamótasetu; þessu klósetti var reyndar bara sturtað niður og það gleymdist í nokkrar aldir eða þar til Thomas nokkur Crapper tók upp hugmyndina, seint á nítjándu öld, og breytti klósettmenningu heimsins.