Þriðjungi minna af sorpi er keyrt suður til urðunar frá Ísafirði eftir að bærinn hóf að flokka lífrænan úrgang til moltugerðar. Tæpt ár er síðan Ísafjarðarbær hóf flokkun lífræns úrgangs. Almennt sorp til urðunar frá heimilum á sjö mánaða tímabili fór úr 334 tonnum 2018 niður í 226 tonn 2019.

Þetta þýðir að yfir þriðjungur sorpsins fer nú í moltugerð í stað þess að vera fluttur úr sveitarfélaginu til urðunar. Hér eru 3 tonn af moltu sem safnast saman hjá Ísafjarðarbæ á þremur dögum.

Hún er síðan unnin hér hjá Gámaþjónustunni og verður að gróðurmold í vor.

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar: Það er eiginlega ekki hægt að segja neitt annað heldur en að maður verður bara stoltur af sveitungunum sko. Íbúar og heimili hafa bara tekið þessu ótrúlega vel og þau eru bara tilbúin. Það er mikil gróska, fólk vill og þetta skiptir fólk máli og fólk vill taka þátt í því að flokka heimilissorpið. Fyrirtæki mættu standa sig betur, taka í rauninni það sem að við gerum heima inn á vinnustaðina, starfsmenn að setja pressu á sín fyrirtæki að fara að taka þátt í þessu, fara að flokka sorpið. Elsa María Guðlaugs Drífudóttir: Þetta er töluvert hlutfall af heildarsorpi af svæðinu.

Guðmundur Gunnarsson: Þetta er þá þriðjungur sem að þá verður eftir í þessu. Það er tvennt í þessu, það er annars vegar það að auðvitað er frábært að flokka lífræna úrganginn og endurnýta hann en þetta vekur held ég líka fólk til umhugsunar um matarsóun. Ég held þetta verði mjög áþreifanlegt þegar að fólk fer að flokka lífrænan úrgang heima fyrir og fer að átta sig á því hversu mikill hluti af því sem að þú hendir frá þér eru matvæli.

Frétt og mynd af Ruv.is 19.9.2019