Fjölskylduhátíðin "Fiskidagurinn Mikli" fór fram um nýliðna helgi á Dalvík. 

Nýr samstarfsaðili hátíðarinnar, Arctic Adventures, tók þátt með hreinsun á fjörum við utanverðan Eyjafjörð. Arctic Adventures útvegaði báta og búnað til að fara upp í fjörur og hreinsa þar til. Þessi hreinsun fór fram fimmtudaginn 8. ágúst með þátttöku íbúa og gesta hátíðarinnar. Ruslið og það sem finnst við strendurnar var síðan til sýnis á laugardeginum eða sjálfum Fiskideginum mikla. Mikil vakning hefur orðið fyrir mikilvægi þess að hreinsa hafið og strandlengjur landsins. Við utanverðan Eyjafjörð eru margar fjörur illfærar og þar mun verkefnið að mestu fara fram. Aðrir samstarfsaðilar í þessu verkefni m.a. Samál sem mun endurvinna allt ál sem finnst og Gámþjónusta Norðurlands sem flokkar og vinnur úr ruslinu, Sæplast sem sér um ker fyrir ruslið sem finnst, allir sjálfboðaliðarnir og fleiri.

Flokkun á rusli
Á sl. ári hófst samstarf fjögurra aðila, Samáls samtaka álframleiðenda, Sæplasts, Terra Norðurland og Fiskidagsins mikla. Þá var álpappír, plast og almennt sorp flokkað ásamt dósum og plastflöskum sem voru flokkaðar af Björgunarsveitinni á Dalvík. Sama flokkun var í gangi í ár. Sæplast setur upp litakerfi og merkingar á Sæplastkör sem verða víða á hátíðarsvæðinu og standa vonir til þess að gestir kynni sér merkingar og leggi verkefninu lið. Terra Norðurland sér að venju um að taka það sem flokkað er og kemur á rétta staði. Samál tekur síðan allan álpappír og endurvinnur.

Fréttin birtist fyrst hér: https://trolli.is/fjolskyldan-saman-a-fiskideginum-mikla/
Á myndinni (sem tekin var í fyrra) má sjá aðila frá Samáls samtaka álframleiðenda, Sæplasts, Terra Norðurland og Fiskidagsins mikla.