Greinina skrifaði Stefán Gíslason hjá Environice en hún birtist fyrst í bæklingi um úrgangsmál og endurvinnslu sem var borin út á Ísafirði þegar lífræn söfnun hófst þar nýverið.

Nú er mikið talað um umhverfismál og mikilvægi þess að flokka allan úrgang sem best. En skiptir þessi flokkun einhverju máli? Fer þetta ekki hvort sem er allt í sama hauginn? Og hvers vegna ætti ÉG að vera að flokka allt ef HINIR gera það ekki líka?

Úrgangur er ekki bara úrgangur. Úrgangur er fyrst og fremst vara sem okkur hefur mistekist að nýta nógu vel. Og mest af þessari vöru keyptum við fyrir peninga, sem við fengum í skiptum fyrir vinnu, eða í raun og veru í skiptum fyrir tíma.

Úr tölum frá Hagstofu Íslands má lesa að meðal-Íslendingurinn fái u.þ.b. 20.000 krónur útborgaðar fyrir hvern vinnudag. Það þýðir að í hvert skipti sem þessi meðal-Íslendingur kaupir eitthvað sem kostar 20.000 krónur, þá borgar hann fyrir það með heilum degi úr lífi sínu. Og ef þetta „eitthvað“ endar í ruslinu, þá fer þessi heili dagur með því.

Allir hlutir eiga sína ævisögu. Tökum venjulegar gallabuxur sem dæmi. Ævisagan þeirra byrjar á akrinum þar sem bómullin er ræktuð. Í bómullarrækt er notað mikið af vatni, áburði og skordýraeitri, sem allt verður þá hluti af ævisögu buxnanna. Seinna fer bómullin í fataverksmiðju þar sem ofið er úr henni klæði. Síðan þarf að sauma úr klæðinu og þá bætast hlutir á borð við tvinna, tölur, smellur og rennilása við ævisöguna. Einhvers staðar í þessari sögu eru líka notuð litarefni og ýmis önnur efni til að buxurnar fái rétta áferð og eiginleika. Löngu seinna kaupum við kannski þessar buxur og borgum fyrir þær með hálfum eða heilum degi úr lífi okkar. Svo þarf að þvo þær og þá notum við vatn, rafmagn og þvottaefni. Þegar og ef buxurnar enda svo í ruslinu, þá liggur þar ekki bara ein flík, heldur allt hitt efnið úr ævisögunni, þ.e.a.s. allt vatnið, áburðurinn, skordýraeitrið, litarefnin og orkan sem var hluti af þessum buxum, þ.m.t. orkan sem fór í að flytja bómullina og buxurnar um heiminn þveran og endilangan alla leið til okkar.

Þegar „eitthvað“ endar í ruslinu, þá fer öll ævisagan með því. Á bak við hverja fulla ruslatunnu fyrir utan húsið okkar leynast kannski 70 fullar ruslatunnur einhvers staðar annars staðar, oftast í fjarlægum löndum, fullar af ruslinu sem féll til í framleiðslu og flutningum í fyrri köflum ævisögunnar. Sama gerist þegar maður hellir niður t.d. einu glasi af eplasafa. Þá fara 190 lítrar af vatni til spillis, skv. upplýsingum frá Water Footprint Network.

Úrgangur er sem sagt ekki bara úrgangur, heldur er í raun miklu réttara að líta á hann sem auðlind. Mikilvægasta verkefnið okkar í úrgangsmálum er því ekki að koma í veg fyrir að úrgangurinn mengi umhverfið (þó að það sé auðvitað mikilvægt), heldur miklu frekar að koma í veg fyrir sóun auðlinda. Við búum jú öll á kúlu af takmarkaðri stærð, (á Jörðinni sem sagt) og á svoleiðis kúlu er ekki pláss fyrir nema takmarkað magn af auðlindum. Við þurfum að ganga vel um þessar auðlindir til þess að geta notið þeirra áfram um langa framtíð.

Hlutir úr áli eru gott dæmi um mikilvægi flokkunar og endurvinnslu. Til að framleiða 1 tonn af áli þarf a.m.k. 4 tonn af báxíti, 100 kg af 50% vítissóda, 400 kg af kolefni, 15.000 kwst af raforku, 100 kg af kalki, 20 kg af álflúoríði og hátt í 10.000 lítra af vatni. Við þetta verða til u.þ.b. 2 tonn af hættulegri rauðri úrgangseðju sem verður eftir þar sem báxítið var unnið, svo og 1,5 tonn af koltvísýringi og dálítið af flúoríði, brennisteinsoxíði, ryki o.fl. sem sleppur að einhverju leyti út í andrúmsloftið frá álverunum. Allt öðru máli gegnir um endurvinnslu á áli. Fyrir hvert tonn sem er endurunnið sparast um 95% af þeirri orku sem annars hefði farið í frumframleiðslu á sama magni af áli og um leið sparast allt báxítið og vítissódinn – og meirihlutinn af vatninu, auk þess sem lítið losnar af koltvísýringi og ekkert bætist við rauðu eðjuna. Og til að kóróna allt saman er endurunna álið alveg eins og það nýja. Með þetta í huga hlýtur að vera augljóst hvers vegna maður hendir aldrei áli í ruslið, heldur setur það í endurvinnslutunnuna, jafnvel þó að þetta séu bara lítil stykki á borð við kertabakka og álpappírssnifsi.

Plastumbúðir eru annað dæmi um efni sem ætti aldrei að fara í ruslið en alltaf í endurvinnslutunnuna. Plast er búið til úr olíu og til að búa til 1 kg af plast þarf að jafnaði um 2 kg af olíu. Ef plastið er hreint og vel flokkað fást allt að 25 kr. fyrir kílóið af því til endurvinnslu, en ef það fer í urðun þarf að borga 15-20 kr. með hverju kílói, auk þess sem þá þarf að ná í meiri olíu til að búa til nýtt plast. Endurvinnsla á plasti gengur reyndar misvel, en það sem ekki er hægt að endurvinna fer í sorpbrennslustöðvar erlendis, þar sem orkan úr plastinu er nýtt til raforkuframleiðslu og upphitunar. En þetta gerist bara ef plastið ratar rétta leið í endurvinnslutunnuna. Annars fer það í urðun með tilheyrandi kostnaði, engum til gagns. Og þegar búið er að urða plastið má reikna með að það liggi þar næstu 500 eða 1.000 ár, því að plast brotnar seint og illa niður. Enn verra er þó ef plastið fýkur út í buskann og lendir t.d. í sjónum þar sem það getur velkst um í aldir og valdið lífríkinu miklum skaða.

Pappír brotnar svo sem niður í náttúrunni, en hvers vegna ættum við henda pappír sem hægt væri að nota aftur eða endurvinna? Ef við missum pappírinn okkar út úr hringrásinni þarf að framleiða nýjan pappír í hans stað. Þá fara auðlindir til spillis. Allur pappi og pappír á að fara í endurvinnslutunnuna, því að þannig nýtum við auðlindirnar best.

Lífrænn úrgangur hentar líka mjög vel til endurvinnslu. Úr honum er hægt að vinna eldsneyti á bíla og moltu eða jarðvegsbæti, sem Íslendinga sárvantar. Landið okkur hefur verið að blása upp áratugum og öldum saman. Sú staða væri allt öðruvísi og miklu betri ef við hefðum borið gæfu til að vinna jarðvegsbæti úr lífrænum úrgangi og skila honum aftur til landsins. Á hverju ári urða Íslendingar líklega um 100 þúsund tonn af lífrænum úrgangi sem hefði mátt nýta með þessum hætti. Og í lífrænum úrgangi er líka fosfór sem er bráðnauðsynlegur öllu lífi, bæði sem næring fyrir gróðurinn og fyrir bein og aðra vefi líkamans. Nýtanlegur fosfór á jörðinni mun ganga til þurrðar á næstu öldum ef við höldum áfram að henda öllum fosfórafgöngum sem á vegi okkar verða.

Þetta er ekkert flókið: Við eigum einfaldlega aldrei að henda neinu sem hægt er endurvinna eða nýta betur með einhverjum hætti. Auðlindir náttúrunnar og dagarnir okkar sjálfra nýtast þó auðvitað best ef við kaupum aldrei neitt sem við þurfum ekki að nota. Gramm af forvörnum er nefnilega betra en kíló af lækningu, eins og einhver sagði einhver tímann. Af sömu ástæðum eigum við að reyna að láta hlutina okkar endast sem lengst til að ekki þurfi að nota takmarkaðar auðlindir til að búa til nýja hluti. Og ef við sjáum enga leið til að nýta hlutinn betur sjálf eigum við að reyna að láta hann ganga í endurnýjun lífdaga hjá einhverjum öðrum. Á endanum verður hluturinn samt sjálfsagt að úrgangi. Þegar svo er komið er efnisendurvinnsla besti kosturinn, þ.e. að nýta efnið úr hlutnum til að búa til eitthvað nýtt. Sé það ekki mögulegt er skárra en ekkert að nota alla vega orkuna úr hlutnum, t.d. með því að brenna hann og framleiða rafmagn og/eða hita. Urðun er neyðarúrræði sem aldrei ætti að grípa til fyrr en allt annað hefur verið reynt. Sama á við um sorpbrennslu án orkunýtingar.

Sumum finnst þeir kannski ekki hafa tíma til að flokka allan þennan úrgang og koma honum í réttan farveg. En það er auðvelt að útvega sér meiri tíma, því að um leið og maður hættir að kaupa óþarfa sparast tíminn sem það hefði annars tekið að vinna fyrir óþarfanum. Það græða sem sagt allir á úrgangsforvörnum, endurnotkun og endurvinnslu, bæði við sjálf, samfélagið í heild og jörðin sem við búum á. Þurfum við að ræða það nokkuð frekar?


Stefán Gíslason

Environice