Ef þú finnur ekki svar við þinni spurningu, endilega sendu okkur fyrirspurn. 

Hvernig flokkast ljósaperur?

Ljósaperur eru skilgreindar sem raftæki og flokkast því sem spilliefni. Ljósaperur eiga því ekki að fara með gleri heldur raftækjum. Þetta gildir um allar gerðir af ljósaperum: Glóperur, halogen, ledperur, flúor og sparperur. Það er mikilvægt að reyna að brjóta ekki perurnar því þá geta ýmis hættuleg spilliefni borist út í andrúmsloftið. Komið því ljósaperunum í þar til gerð ílát á söfnunarstöðvum sveitarfélaga eða skilið þeim beint til móttökustöðva spilliefna

Hvernig á að flokka eyrnapinna?

Eyrnapinnar flokkast sem almennt sorp.

Má eldhúspappír fara í lífræna flokkun?

Já, matarsmitaður pappír má flokkast með lífrænum úrgangi. 

Af hverju flokka ekki öll heimili á landinu eins?

Í dag eru það sveitarfélögin sem leggja sínar línur og skilgreina þjónustustigið, hversu margar tunnurnar eru, hvernig þær eru á litinn og svo framvegis. Svo fer það kerfi sem ákveðið er í útboð, og fyrirtæki (eins og við hjá Terra) bjóðum í þjónustuna sem mögulegur þjónustuaðili.  Þessi mál eru hins vegar í ferli og bæði hefur verið talað um að koma á skyldusamræmingu á öllu landinu og eins að samræmdar merkingar verði notaðar. Það á að vera hvetjandi að flokka, allt sem er flókið er letjandi og það viljum við alls ekki. 

Hvernig á að flokka álpappír?

Álpappír flokkast með málmi og er endurvinnanlegur – í raun á sama hátt og til dæmis áldósir. Það má endurvinna álpappír aftur og aftur og búa til úr honum nýjar vörur. Til þess að búa til nýjar vörur úr endurunnum álpappír þarf 95% minni orku miðað við að búa til nýjan álpappír frá grunni.

Hvernig flokkast tyggjó?

Tyggjó á hvorki heima í plastflokkun né í lífrænni flokkun heldur á að flokka tyggjó sem almennt sorp. Því miður – en við sjáum hvað gerist þegar tyggjói er hent á götuna, það tekur áratugi að leysast upp og hverfa. Við fáum tyggjó heil í gegnum moltuvinnslu. Enda borðum við ekki tyggjó – við tyggjum það.

Hvernig flokkast lífplast?

Orðið lífplast er notað bæði yfir lífbrjótanlegt plast og plast sem brotnar ekki niður. Um 1/3 lífplasts sem er framleitt er lífbrjótanlegt en hitt er lífplast sem brotnar ekki niður. Lífbrjótanlegt lífplast sem brotnar niður í hefðbundnu jarðgerðarferli flokkast með öðrum lífrænum úrgangi.
Allt annað sem lítur út eins og plast á að flokka með öðru plasti. Ef þú ert hins vegar í vafa hvort að plastið brotni niður, ekki setja það í lífrænt heldur með öðru plasti, látum náttúruna njóta vafans.

Hvernig flokkast handþurrkur af salernum?

Allur úrgangur af salernum á að fara í almennt sorp. Handþurrkur af salernum eiga aldrei að flokkast með pappa.

Hvernig flokkast myndbandsspólur?

Ef um er að ræða lítið magn, þeas. einkasafn, þá er jú hægt að taka þessa hluti í sundur og ef hægt er að gera það nógu vel svo að það fari í einsleita efnisstrauma, s.s. hreint plast og hreina málma, þá má það fara þá leið. Það er því miður ekki til endurvinnsluferill fyrir segulbandið sjálft sem fer því með almennum úrgangi. Ef um er að ræða mikið magn, þá er hægt að hafa samband og við að skoðum það sérstaklega.

Hvernig flokkast einnota hanskar og einnota grímur?

Einnota hanskar og grímur flokkast í almennt sorp

Hvernig flokkast bækur?

Innbundnar bækur með saumuðum kili eru erfiðar í venjulegri pappírs-endurvinnslu. Ef kjölurinn er límdur saman má bókin fara í endurvinnslu. Eins er hægt að rífa kjölinn af og setja blaðsíður í endurvinnslu- eða pappírstunnu. Annars fara innbundnar bækur í almennt sorp.

Þarf að þvo endurvinnsluefni?

Allt efni sem fer til endurvinnslu þarf að vera nokkuð hreint en ekki er nauðsynlegt að þurrka umbúðirnar. Oft á tíðum er um samsettar umbúðir að ræða og er þá gott að aðskilja efnin eins og mögulegt er t.d. að rífa plastflipa af drykkjarfernum og taka ál- eða pappafilmu af jógúrt- og skyrumbúðum og fleiri umbúðum áður en efnin eru sett í viðeigandi ílát.

Flokkast gluggaumslög sem pappír eða plast?

Gluggaumslög mega fara með pappír og óþarfi er að taka plastið af

Þarf að taka merkimiðana af endurvinnsluefnum?

Nei, það þarf ekki að taka merkimiðana af plastumbúðunum né t.d miða af áldósum og svo framvegis. 

Hvernig flokkast sprittkerti?

Tómir sprittkertabikarar flokkast með málmi.